Gamli torfbærinn í Glaumbæ er meðal merkustu menningarminja þjóðarinnar. Hann er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, sem alfriðaðar þjóðminjar samkvæmt Þjóðminjalögum. Bærinn tilheyrir þeirri heild torfbæja sem er á yfirlitsskrá heimsminjaskrár UNESCO, og vitnar um einstakt gildi torfbæjanna í alþjóðlegðu samhengi og mikilvægi þess að tryggja trausta varðveislu þeirra. Sú ábyrgð er hjá okkur öllum.
Samningi, sem gerður var á milli Þjóðminjasafn Íslands og Byggðasafns Skagfirðinga þann 26. febrúar árið 2002, hefur nú verið sagt upp. Markmiðið með þeim samningi var að tryggja varðveislu bæjarins, veita gestum aðgengi að honum og leggja grundvöll að starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga, sem hefur haft sýningu í bænum frá 1952. Samningurinn fól í sér að Byggðasafn Skagfirðinga sá um rekstur, daglega umhirðu og minni háttar viðhald á bænum og bar allan kostnað af sýningahaldi og rekstri bæjarins „þ.m.t. laun gæslufólks, orkureikninga, umsjón og árlegt viðhald, allt að 800 þús kr. á ári“ nema um annað væri samið. Frá því að samningurinn við Byggðasafnið tók gildi árið 2002 hefur Þjóðminjasafn Íslands varið tæpum 55 millj. kr. til bæjarins auk 5 millj. kr. styrkst úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2015 sem notaður var til að helluleggja stíg frá bílastæðum og umhverfis bæinn. Á sama tíma hefur Byggðasafn Skagfirðinga varið um 12 millj. til reksturs og viðhalds bæjar og til umhirðu lóðar.
Mótvægisaðgerðir vegna fjölda ferðamanna mega ekki tefla varðveislugildi bæjarins í hættu og í nýjum samningi verður lögð áhersla á þann þátt. Þá hefur Þjóðminjasafnið áhuga á að útvíkka samstarfið, sem alla tíð hefur verið gefandi og árangursríkt, og efla samvinnu um rekstur og aðgengi að fleiri húsum þess í Skagafirði. Þjóðminjar í húsasafni Þjóðminjasafnsins í Skagafirði auk Glaumbæjar eru: Pakkhúsið á Hofsósi, Grafarkirkja, Nýibær á Hólum, bæjardyrahús og þingstofa á Stóru-Ökrum, Víðimýrarkirkja, bæjardyrahús á Reynistað og Sjávarborgarkirkja.
Þjóðminjasafnið mun fara fram á hlutfall af aðgangseyri að þeim minjum sem um verður samið og nýta það til varðveislu og viðgerða annarra friðaðra þjóðminja í Skagafirði. Takist samningar á þeim forsendum mun samvinna milli safnanna snúast um rekstur og ábyrgð á húsunum, um aðgengi að þeim og verkstjórn. Byggðasafn Skagfirðinga er með meginaðstöðu í Glaumbæ og á Sauðárkróki. Þjóðminjasafnið hefur, með óskertum aðgangseyri inn í gamla bæinn í Glaumbæ, sannarlega lagt traustan grunn að starfsemi þess á undaförnum árum og er ein ástæða þess að það er nú viðurkennt safn, með öllu sem í því felst.