Byggðasafn Skagfirðinga tekur þátt rannsókn á viðhorfi almennings til torfhúsa, ásamt Þjóðminjasafni Íslands, Minjastofnun Íslands og Rannsóknamiðstöð ferðamála en Sigríður Sigurðardóttir fyrrum safnstjóri byggðasafnsins leiðir verkefni fyrir hönd Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum.
Í kynningu rannsóknarinnar segir að ferðamennska hefur vaxandi áhrif á efnahag, menningu, náttúru og ímynd landsins, sem og á sjónarmið fólks til verndunar og nýtingar náttúru- og menningarminja. Á undanförnum árum hefur töluverð umræða verið um íslenskan menningararf og hann skilgreindur í alþjóðlegu samhengi. Hlutverk menningararfs í ferðaþjónustu vex stöðugt.
Íslensk torfhús eru sérstakt viðfangsefni í þessum efnum. Þau eru mikilvægur hluti af íslenskum menningararfi, sem erlendir ferðamenn sýna mikinn áhuga, enda varpa þau ljósi á sérstöðu íslensks byggingararfs og íslenskrar þjóðar. Vitað er að ókunnur fjöldi standandi og hálfstandandi torfhúsa er um allt land en viðhaldsþekking þeirra er að hverfa. Við því þarf að bregðast svo hægt sé að gera ráðstafanir, hvort sem er til verndunar og nytja eða utanumhalds til framtíðar litið.
Markmið rannsóknar um torfhús er að kanna viðhorf landsmanna og ferðamanna til þessa menningararfs. Rannsókninni er ætlað að leiða í ljós hvaða sess torfhús hafa í fræðslu, í minjavernd og í ferðaþjónustu og hver raunverulegur vilji Íslendinga er til að vernda og nýta torfhús hvort sem þau eru notuð eða ekki.
Rannsókninni er einnig ætlað að kanna hvaða viðhorf eru ríkjandi gagnvart verndun byggingahand-verks torfhúsanna. Forsenda þess er að hægt sé að þekkja minjagildi þeirra og fjármagna viðhald þeirra er að vita hve mörg eru til og hve mörg ætti að halda í. Til þess að glöggva sig á því þarf að skrá öll torfhús og torfhúsaleifar.
Tilgangur rannsóknarinnar er þríþættur:
1) að kanna viðhorf til torfhúsa,
2) fá fram skoðun ferðamanna á gildi torfhúsarfs Íslendinga,
3) kanna viðhorf til gildis handverksins á bak við torfhúsin, gildi húsanna og þar með verndun þeirra.
Víða um land standa torfbyggingar sem vekja athygli þeirra sem fara hjá. Heildarskrá yfir þessi torfhús er ekki til. Til að átta sig á umfanginu þarf að skrá þau, staðsetja og lýsa þeim. Sá hluti rannsókninnar fælist í að skrásetja standandi/hálfstandandi torfhús, úr hverju og hvernig þau eru byggð. Þessar byggingar glatast án fólks með reynslu og þekkingu á þeim handverksaðferðum sem þær eru sprottnar af.
Til að hægt sé að horfa til framtíðar, hvað snertir nýtingu eða varðveislu torfhúsarfs, þarf að þekkja ástand húsakostsins. Í framhaldi má útbúa viðbragðsáætlun til verndar og viðhalds húsanna í samráði við hagsmunaðila. Húsverndarstofa Árbæjarsafns, Fornverkaskólinn í Skagafirði, Tækniskólinn í Hafnarfirði, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Landbúnaðarháskólinn og fleiri bjóða upp á stopul námskeið sem snerta viðgerðir og viðhald á torfhúsum og nýbyggingar þesskonar húsa, samkvæmt gömlum aðferðum, en betur má ef duga skal og nauðsynlegt er að þessir aðilar fái meiri stuðning.
Í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands eru tuttugu torfhús. Þar af eru tíu stórir torfbæir, fimm kirkjur, tveir bæjarhlutar og þrjú minni hús. Af þessum húsum eru átta með auglýstan opnunartíma og móttöku fyrir gesti. Íbúahreyfingar og söfn hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar og stofnað til útiminja-safna og varðveisluverkefna þar sem torfhús leika lykilhlutverk í mótun staðar- og söguvitundar s.s í Árbæjarsafni og Skógum undir Eyjafjöllum. Listamenn hafa gert torfhús að viðfangsefni sínu og arkitektar hafa litið til torfhúsa sem fyrirmynda í skipulagi og gerð mannlegs umhverfis í arkitektúr samtímans. Fræðimenn hafa lagt sitt af mörkum og reifað gildi torfhúsa sem menningararfs. Ferðaþjónustuaðilar hafa byggt upp nýja gisti- og afþreyingarþjónustu í torfhúsum, s.s. gistihús í Einolti í Biskupstungum, á Hofsstöðum í Skagafirði og í Möðrudal á Fjöllum og hesthús úr torfi hefur verið byggt á Lýtingsstöðum í Skagafirði til að sýna ferðamönnum. Á hinn bóginn hafa ekki verið gerðar margar torfhúsatengdar rannsóknir. Tilgangurinn með þessari rannsókn er að bæta úr því.
Niðurstöður rannsóknarinnar geta haft áhrif á hvaða afstöðu ferðamálayfirvöld, mennta- og menningarmálayfirvöld taka til nýtingar og verndar þessa menningararfs og þar með handverks-þekkingarinnar (torf- og grjóthleðslu og trésmíði) sem er grunnurinn að viðhaldi þeirra. Þá munu niðurstöður rannsóknarinnar geta haft áhrif á svæðastýrða markaðssetningu, fræðslu og áframhaldandi rannsóknir. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felst í upplýsingum, sem liggja í nýrri þekkingu, sem nýtist við mótun framtíðarsýnar og -áforma gagnvart viðhaldi, verndun og nýtingu torfhúsa og skapa sóknarfæri fyrir frekari nýtingu þeirra um land allt.“
Spurningalistann má nálgast hér.
Heimild: Sigríður Sigurðardóttir (2019). Rannsókn um minja- og nytjagildi torfhúsa. Hólar: Hólaskóli – Háskólinn á Hólum.