Hægt er að lesa Lesið í landið hér á Gagnabanka heimasíðunnar. Lesið í landið, menningarminjar í landslagi er 18. smárit safnsins. Stiklað er á stóru í auðugri minjaflóru umhverfisins og lögð áhersla á minjar um lifnaðarhætti fyrir vélvæðingu 20. aldar, enda ekki gerlegt að gera öllum minjum skil í einu smáriti.
Falleg náttúra er segulmögnuð. Sama gildir um minjaumhverfið í hugum þeirra sem sjá og þekkja hvernig forfeður okkar nýttu landið og hafa sett mark sitt á það. Fáir fara um lönd án leiðarvísa eða landakorta. Á þeim má sjá bæjarnöfn og örnefni sem minna á þjóðhætti liðins tíma. Ef grannt er skoðað talar sagan til okkar frá gömlum tóftarbrotum þar sem menn hafa ekki bylt jörðu og kaffært með nútíma mannvirkjum. Af þeim má lesa merkilegar upplýsingar. Veggjabrot og hálfhrunin hús eru sumum þyrnir í augum en þegar hlutverk þeirra eru þekkt getum við metið þau út frá gildi þeirra og handverkinu sem í þeim felst. Þá blasa við okkur heimildir sem geta svo sannarlega kryddað tilveruna.