Fara í efni

Námskeið fornverkaskólans

Nemendur og kennarar frá smíðadeild NTNU háskólanum í Þrándheimi í Noregi vinna í vegg á Syðstu-Grun…
Nemendur og kennarar frá smíðadeild NTNU háskólanum í Þrándheimi í Noregi vinna í vegg á Syðstu-Grund.

Mikið var um dýrðir hjá Fornverkaskólanum nú í september, en tvö námskeið voru haldin í torfhleðslu, annað á Tyrfingsstöðum og hitt á Syðstu-Grund. 

Fyrra námskeiðið var haldið 1-3. september á Tyrfingsstöðum og voru þátttakendur m.a. frá Minjastofnun, Húsverndarstofu og Byggðasafni Skagfirðinga. Á námskeiðinu var kennd torfrista og -stunga, kannaðar voru ýmsar hleðslugerðir og unnið að viðgerðum í bæjargöngum og þaki gamla bæjarins. Í bæjargöngum var oft þröngt á þingi, en allt gekk þetta með miklum sóma. Eins og áður sá Helgi Sigurðsson hjá Fornverki um kennslu á námskeiðinu og Ylfa Leifsdóttir, starfsmaður Byggðasafns Skagfirðinga hélt utan um veitingar og skipulag á meðan námskeiði stóð. Að vanda voru Stína og Siggi, ábúendur á Tyrfingsstöðum stoðir okkar og styttur á meðan námskeiði stóð, Stína stóð fyrir útskriftarveislu í lok námskeiðs og sendum við þeim góðar þakkir fyrir aðstoðina og samveruna.

Síðara torfhleðslunámskeiðið var haldið á Syðstu-Grund dagana 5-7. september og voru þátttakendur m.a. frá Minjastofnun og Þjóðminjasafni, en stærsti hluti þátttakenda voru nemendur og kennarar frá smíðadeild NTNU háskólanum í Þrándheimi í Noregi, en námið snýst um kynningu og sérhæfingu í hefðbundnu byggingarhandverki. Á Syðstu-Grund voru hreinsaðir burt gamlir veggir útihúsa sem standa sunnan við bæinn, þátttakendur spreyttu sig á torfristu og -stungu, fengu sýnikennslu í mismunandi hleðslutegundum og byggðu loks upp alla veggi hússins með klömbruhnausum, streng- og grjóthleðslu.
Að vanda sá Helgi Sigurðsson frá Fornverki um kennslu á námskeiðinu og um skipulag og umsjón sáu Ylfa Leifsdóttir og Inga Katrín D. Magnúsdóttir frá Byggðasafni Skagfirðinga.
Ábúendum og fjölskyldunni á Syðstu-Grund þökkum við góðar undirtektir, stuðning og aðstoð á meðan námskeiðinu stóð. Kolbrún María Sæmundsdóttir og fjölskylda slógu til útskriftarveislu í lok námskeiðs og sendum við góðar kveðjur og þakkir fyrir okkur!
 
Myndir frá námskeiðunum má sjá hér og hér.