Ljósmyndun allra safnmuna er hafin. Þarft en tímafrekt vandaverk, sem Guðmundur St. Sigurðarson mun annast að mestu fyrst um sinn. Ljósmyndir verða vistaðar með upplýsingum um hvern safnmun á www.sarpur.is og myndir af forvitnilegum munum verða birtar á fésbókarsíðu safnsins. Jafnhliða ljósmynduninni verður leitað nákvæmra upplýsinga um ýmsa safnmuni og saga þeirra og notkun kynnt hér á heimasíðunni undir Merkisgripir.
Dæmi um merkisgrip sem kynntur er á heimasíðunni er göngustafur (BSk.1996:2-1882) feðganna Jóns Péturssonar (1867-1946) og Pálma Hannesar Jónssonar (1902-1992), sem myndin er af. Á handfangið, sem er úr rostungstönn, er útskorin hestmynd eftir Ríkharð Jónsson af gæðingnum Stíganda, sem Hestamannafélagið Stígandi í Skagafirði er nefnt eftir.