Sigríður Sigurðardóttir lét af störfum sem safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga um mánaðarmótin júní-júlí eftir farsælt starf hjá safninu undanfarna rúma þrjá áratugi, en hún var ráðin sem safnstjóri 1. ágúst 1987 fyrir nákvæmlega 31 ári.
Á starfstíð Sigríðar hefur mikil uppbygging átt sér stað í Glaumbæ sem og hjá Byggðasafninu öllu, Áshús var flutt á safnasvæðið og gert upp og jafnframt Gilsstofa sem var endurgerð. Fjölmargar sýningar voru settar upp víðsvegar um Skagafjörð og safninu mörkuð sú stefna að að safna, skrá, varðveita, rannsaka og miðla menningar- og minjaarfi Skagfirðinga. Í seinni tíð hefur starfsemi safnsins einkennst af öflugu safnastarfi auk rannsókna á minjum og minjaumhverfi Skagafjarðar, en árið 2003 var fornleifadeild komið á fót sem hefur stundað öflugar fornleifarannsóknir innan héraðs og utan. Árið 2011 var rekstri safnsins skipt í tvö fagsvið, annars vegar svið varðveislu og skráninga og hins vegar rannsókna og miðlunar. Þá hefur safnið gefið út fjölmörg rit, skýrslur og greinargerðir sem fjalla um sögu, þjóðfræði, þjóðhætti, fornleifar og fleira.
Hið faglega og metnaðarfulla starf sem einkennt hefur stjórnartíð Sigríðar hefur víða vakið athygli og varð til þess að Byggðasafn Skagfirðinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin árið 2016. Líkt bent var á í umsögn valnefndar „hefur tekist að skipa safninu í flokk með þeim fremstu sinnar tegundar á Íslandi“ þökk sé vökulu auga og hæfu starfsfólki safnsins. Ennfremur segir: „Öflugar og sérhæfðar rannsóknir safnsins varpa ljósi á mannauð sem það býr yfir og sýna fram á hvers byggðasöfn eru megnug þegar þau hafa náð viðurkenndum sessi.“
Byggðasafnið hefur á undanförnum árum haslað sér völl sem miðstöð fræða og rannsókna og hafa Sigríður og starfsfólk hennar tekið á móti fjölda manns – fræðimönnum sem og áhugafólki um sögu, menningu og minjar – og samhliða móttöku gesta starfrækt öflugan vinnustað á víðu starfssviði safnsins.
Föstudaginn 29. júní var síðasti dagur Sigríðar sem safnstjóri. Af því tilefni lögðu margir leið sína í Glaumbæ, m.a. samstarfsfólk, forsvars- og starfsmenn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, og færðu Sigríði blómvönd og um leið kærar þakkir fyrir vel unnið og farsælt starf með óskum um velfarnað í framtíðinni. Á meðal þeirra var skagfirski félagsskapurinn Pylsaþytur, sem hefur það að markmiði að efla notkun á íslenskum þjóðbúningum. Nokkrar konur úr félagsskapnum mættu í fullum skrúða og þökkuðu Sirrí fyrir gott samstarf í gegnum árin.