Það þarf ekki að fara langt til að hafa það skemmtilegt í vetrarfríinu. Á fimmtudaginn 7. mars nk. verður sannkallað fjölskyldufjör hjá Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ, í tilefni af vetrarfríi grunnskólanna í Skagafirði. Farið verður í ratleik um safnasvæðið, völuspá verður í gamla bænum og sýndarveruleikasýningin „Menning, tunga og tímagöng til 1918“ verður í Gilsstofu.
Í sýndarveruleikasýningunni gefst gestum kostur á því að skyggnast inn í íslenskan veruleika ársins 1918 með aðstoð 360° sýndarveruleikagleraugna og fræðast á lifandi hátt um samgöngur, verslun og viðskipti, um landbúnað og sjósókn en einnig um torfbæina – sem voru bæði heimili og vinnustaður fólks árið 1918. Sýninguna vann Árni Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður hjá Skotta Film.
Klukkan 14:30 verður hægt að taka þátt í skemmtilegum og fróðlegum ratleik fyrir fjölskylduna sem leiðir gesti safnsins um safnasvæðið. Þá verður einnig völuspá í gamla bænum.
Í Áskaffi verður hægt að fá rjúkandi heitt súkkulaði og pönnuköku á tilboðsverði, á 500 krónur.
Dagskráin verður frá kl. 14-16. Frítt verður á safnið fyrir fullorðna í fylgd með börnum – verið velkomin í Glaumbæ.