Fara í efni

FJÖLMENNT Á OPNU HÚSI Á TYRFINGSSTÖÐUM

Frá opnu húsi á Tyrfingsstöðum. Mynd/BÞ
Frá opnu húsi á Tyrfingsstöðum. Mynd/BÞ

Hátt í 150 manns lögðu leið sína fram á Kjálka í Skagafirði laugardaginn 31. ágúst, þegar gömlu húsin á Tyrfingsstöðum voru opnuð gestum og gangandi. Viðburðurinn Opið hús á Tyrfingsstöðum var haldinn í tengslum við Menningarminjadaga Evrópu 2019. Gestum var boðið að ganga um húsin og fræðast um uppbygginguna sem hefur átt sér stað á síðustu árum. Boðið var upp á kaffi og meðlæti, en Kristín Jóhannsdóttir, bóndi á Tyrfingsstöðum, sá um að steikja lummur. Var það í fyrsta skipti í hartnær 50 ár sem kveikt var upp í eldavél í gamla bænum. Sigríður Sigurðardóttir sagði frá tilurð Fornverkaskólans og Tyrfingsstaðaverkefninu.

Frá árinu 2007 hefur verið unnið markvisst að viðgerðum og endurbyggingu torfhúsanna á Tyrfingsstöðum, með námskeiðahaldi og kennslu í t.d. torf- og grjóthleðslu og grindarsmíði. Námskeiðin hafa verið haldin á vegum Fornverkaskólans, samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Hólaskóla. Verkefnisstjóri Fornverkaskólans er Bryndís Zoëga, starfsmaður Byggðasafns Skagfirðinga. Samningur var gerður við ábúendur Tyrfingsstaða, Kristínu Jóhannsdóttur og Sigurð Marz Björnsson, um að samþætta kennslu í gömlu handverki og uppbyggingu og endurreisn torfhúsanna sem stóðu á bænum. Með verkefninu skapaðist vettvangur þar sem varðveisla menningararfsins, kennsla handverks og viðhald menningarminja hefur farið hönd í hönd. Afrakstur og árangur verkefnisins er tvíþættur. Annars vegar felast verðmæti í þeirri þekkingu og hæfni sem nemendur Fornverkaskólans búa nú yfir en hátt í 300 nemendur, bæði íslenskir og erlendir, hafa sótt námskeiðin. Hinn sýnilegi afrakstur felst hins vegar í húsakostinum sem hefur verið endurbyggður á Tyrfingsstöðum. Þar sendur nú heilleg bæjarmynd, með meðalstóru íbúahúsi, fjósi, hlöðu, fjár- og hesthúsum og réttum. Húsin eru á mismunandi stöðum í uppbyggingarferlinu og þörf á að ljúka hinum ýmsu áföngum. 

Við þökkum öllum þeim sem lögðu leið sína fram í Tyrfingsstaði kærlega fyrir komuna. Einnig viljum við þakka Stínu og Sigga á Tyrfingsstöðum fyrir höfðinglegar móttökur og samstarf.

Fleiri myndir frá opna deginum má skoða á síðu Byggðasafnsins á Facebook.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðu Byggðasafns Skagfirðinga og Fornverkaskólans:

 http://www.glaumbaer.is/fornverkaskolinn

http://www.glaumbaer.is/is/safnid-1/samstarf/tyrfingsstadaverkefnid

 http://www.glaumbaer.is/is/safnid-1/samstarf/tyrfingsstadaverkefnid/tyrfingsstadaverkefnid

 http://www.glaumbaer.is/is/safnid-1/samstarf/tyrfingsstadaverkefnid/tyrfingsstadaverkefnid/gamla-handverkid