Fara í efni

Evrópustyrkur til rannsókna á málmbræðslu til forna

Upphaf verkefnisins má rekja til uppgraftar starfsmanna fornleifadeildar á Skógum í Fnjóskadal en þar fundust þrjár heilar deiglur, á fjórða tug deiglubrota og mikið magn gjalls með kopar innskotum. Í fyrstu var lagt upp með að sækja um styrk til greiningar á deiglum frá Skógum en í ferlinu var ákveðið að víkka verkefnið út og freista þess að fá greiningu á fleiri deiglum sem fundist hafa við fornleifarannsóknir eða eru til á söfnum landsins til samanburðar. Haft var samband við einstaklinga innanlands og utan sem vitað var að fundið höfðu deiglur við fornleifarannsóknir og söfn og stofnanir sem líkleg þóttu til að hafa deiglur í sínum fórum og verkefnið auglýst. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og eru nú ráðgert að senda út 35 deiglur og deiglubrot víðsvegar að af landinu til greiningar frá 20 aðilum og stofnunum.

Á myndinni er lítil deigla sem notuð hefur verið við bræðslu kopars
.

Styrkurinn er úr sjóði á vegum verkefnis sem kallast CHARISMA og er samstarfsverkefni rannsóknarstofa víðsvegar um Evrópu og er fjármagnað af Evrópusambandinu. Tilgangur þess er að gefa vísindamönnum í Evrópu tækifæri á að nýta sér aðstöðu sérhæfðra rannsóknarstofa til kostnaðarsamra greininga fyrir valin verkefni.

Farið verður með gripina til rannsókna við greiningarstöð ungversku vísindaakademíunnar í Búdapest (Budapest Neutron Centre) í nóvember þar sem þeir verða greindir undir stjórn dr. Zsolt Kasztovszky. Með greiningunni mun fást nákvæm mynd af efnafræði og gerð þessarar tegundar gripa og þeirra efna og málmleifa sem í þeim finnast. Í framhaldinu er ráðgert að vinna frekar úr efninu og senda sýni af deiglubrotum og koparblönduðu gjalli frá Skógum til greiningar í University College London. Verkefninu stjórna Thomas Birch doktorsnemi við háskólann í Aberdeen, Guðmundur St. Sigurðarson fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga og dr. Marcos Martinón-Torres hjá University College London.

Þetta mun vera fyrsta heildstæða rannsóknin sem gerð er á fornri málmbræðslu á landinu og munu niðurstöðurnar án efa varpa nýju ljósi á ýmislegt er varðar verklag og aðferðir málmbræðsluna sem og gerð og uppruna deiglanna sem notaðar voru.