Ánægjulegt var að sjá hve söfn á Norðurlandi komu vel út í könnun sem unnin var af Rannsóknarmiðstöð ferðamála um söguferðaþjónustu á Norðurlandi en þar kom fram að söfn eru vinsæl afþreying. Ferðamenn voru að jafnaði ánægðir með heimsóknina og fengu söfnin einkunnina 8,4 af 10 mögulegum hjá erlendum ferðamönnum, þá kom m.a. fram að 95% svarenda myndu mæla með Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ við fjölskyldu, vini og kunningja.
Alls svöruðu 823 gestir könnuninni, 625 erlendir og 198 innlendir. Af þeim voru 36% sem höfðu í hyggju að skoða torfhús á meðan á dvöl þeirra á Norðurlandi stæði yfir og 39% sem hugðust skoða önnur söfn á Norðurlandi.
Það voru 60 manns sem svöruðu könnuninni í Glaumbæ og gaman að segja frá því að 41% þeirra höfðu ákveðið að heimsækja safnið áður en að ferð þeirra hófst, 82% voru mjög ánægð með heimsókn sína á safnið og enginn lýsti óánægju.
Könnunin var lögð fyrir ferðamenn sem heimsóttu fjórtán söfn, setur eða sýningar á Norðurlandi á tímabilinu 26. júní til 18. ágúst 2019. Þessi könnun var unnin af Rannsóknarmiðstöð ferðamála að beiðni Markaðsstofu Norðurlands og er hún hluti af greiningu á möguleikum í sögutengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi en verkefnið hlaut styrk frá Ferðamálastofu. Vera Vilhjálmsdóttir hafði umsjón með framkvæmd rannsóknarinnar af hálfu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og sá um úrvinnslu gagna.
Fyrir áhugasama er hægt að skoða skýrsluna í heild sinni hér.