Við óskum landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þökkum gestum, samstarfsfólki og velunnurum fyrir árið sem var að líða. Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga hefur haft í nógu að snúast enda gestafjöldinn aldrei verið meiri en safnið tók á móti 69.060 manns árinu. Það eru 5.893 fleiri gestir en heimsóttu safnið í fyrra en þá tók starfsfólk safnsins á móti 63.167 manns.
Gestir safnsins eru þeir sem heimsækja Glaumbæ og Víðimýrarkirkju, en gestir í Glaumbæ voru 62.733 manns og í Víðimýrarkirkju 6.327. Megin skýringu á þessum fjölda, fyrir utan almenna fjölgun ferðamanna, má rekja til lokunar safnsvæðisins umhverfis Glaumbæ á opnunartíma safnsins. Það var gert sumarið 2021 til þess að bæta aðgangsstýringu safngesta, og um leið að bæta upplifun safngesta af heimsókninni, hlífa gamla bænum við ágangi og bæta loftun hans með því að hafa opið í gegn. Það er ánægjulegt að geta greint frá því að þeim markmiðum hafi verið náð.
Svo stiklað sé á stóru um verkefni safnsins árið 2023 þá var 75 ára afmæli safnsins fagnað með ýmsum hætti. Á samfélagsmiðlum var farið yfir helstu vörður í sögu safnsins með um 40 færslum. Blásið var til afmælishátíðar á stofndegi safnsins, þann 29. maí. Þá var sannarlega fjör á safnsvæðinu í Glaumbæ en um 700 manns heimsóttu Glaumbæ og fögnuðu tímamótunum með okkur, þar af 64 sem tóku þátt með beinum hætti til að gera daginn sem eftirminnilegastan fyrir afmælisgesti. Við tilefnið opnaði safnið þrjár nýjar sýningar;
- Byggðasafn Skagfirðinga í 75 ár – afmælissýning í Áshúsi
- Saga Gilsstofunnar og Briemsstofa
- Hér stóð bær – Skráning Byggðasafnsins á skagfirskum torfhúsum í Gilsstofu
Í sýningunni „Hér stóð bær“ er niðurstöðum Torfhúsarannsóknarinnar gert skil. Á árunum 2021 – 2022 skráði safnið öll torfhús sem að nokkru eða öllu leyti eru uppistandandi í Skagafirði, undir verkefnastjórn Bryndísar Zoëga. Sá hluti sýningarinnar „Á elleftu stundu“ (17.9.2022 - 26.2.2023) sem skaraðist við Torfhúsarannsóknina var fengin að láni frá Þjóðminjasafns Íslands. Lokaskýrsla verkefnisins er væntanleg á næstu vikum og verður birt á heimasíðu safnsins. Hægt er að skoða hana skýrslu 1. áfanga verkefnisins á heimasíðu safnsins. Fjöldi mynda prýðir skýrsluna og fylgir hverju húsi stutt söguágrip og lýsing.
Ásta Hermannsdóttir fornleifafræðingur tók til starfa hjá safninu sem deildarstjóri fornleifadeildar en hún starfaði áður sem verkefnastjóri stefnumótunar og miðlunar hjá Minjastofnun Íslands. Það er óhætt að segja að hún hafu haft í nógu að snúast frá því að hún hóf störf, í skráningar- og rannsóknarverkefnum. Safnið tók þátt í tveimur samstarfsverkefnum sumarið 2023 sem fólu í sér fornleifauppgreftri. Í júnímánuði tók safnið þátt í fornleifarannsókn á verbúðarminjum á Höfnum á Skaga, í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands. Þar eru umfangsmiklar minjar um sjósókn, líklega allt frá elstu tíð en staðurinn á undir högg að sækja sökum mikils landbrots af völdum sjávar. FLASH (Fornbýli Landscape and Archaeolocial Survey, Hegranes) sem er rannsókn á þremur smábýlum í Hegranesi fór fram í júlímánuði; í Kotinu í landi Hellulands, Þrælagerði í Keflavík og Grænagerði í Huldulandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við bandarísku fornleifafræðingana dr. Kathryn A. Catlin og dr. Douglas J. Bolander, með styrk frá NSF (National Science Foundation). Á árinu hófst 1. áfangi af þremur á heildarskráningu fornleifa í Hjaltadal og Kolbeinsdal en fornleifadeild Byggðasafn Skagfirðinga hlaut 2,5 m.kr. styrk úr Fornminjasjóði til verkefnisins.
Þá hófst verkefnið „Viking Networks & Young Adults“ á árinu en um er að ræða samstarfsverkefni safnsins, Lofotr Viking Museum í Noregi, Kyle & Lochalsh Community Trust í Skotlandi og Kujataa UNESCO World Heritage, Norse and Inuit Farming at the Edge of the Ice Cap í Grænlandi. Verkefnið er styrkt af Norræna Atlantssamstarfinu (NORA) og byggir á sameiginlegri arfleifð landanna þriggja, sögu umræddra svæða og minja frá 11. öld. Sameiginlegt markmið safnanna er að finna lausnir við þeim áskorunum sem felast í sjálfbærri ferðamennsku og eflingu afskekktra svæða og byggða. Verkefnið hlaut áframhaldandi stuðning frá NORA og mun halda áfram á árinu 2024.
Í maí fögnuðum við undirritun samnings um byggingu menningarhúss, af menningar- og viðskiptaráðherra og sveitarstjóra Skagafjarðar. Þar verður m.a. nýtt varðveislu– og rannsóknarrými Byggða– og Héraðsskjalasafns. Með því erum við skrefi nær því að koma safnkostinum í varanlegt varðveisluhúsnæði sem uppfyllir skilyrði Safnaráðs til húsnæðis viðurkenndra safna en viðurkenning Safnaráðs er forsenda þess að söfn geti sótt um rekstrarstyrk úr safnasjóði. Þá erum við skrefi nær því að geta tekið við stórum gripum á ný, hlúð vel að þeim gripum sem eru í varðveislu og haft aðgengi að þeim til rannsókna og sýninga.
Fornverkaskólinn stóð fyrir tveimur vel heppnuðum námskeiðum í torfhleðslu í september, annars vegar á Tyrfingsstöðum á Kjálka og Syðstu-Grund í Blönduhlíð. Við tilefnið stóð safnið fyrir málþingi í Kakalaskála þann 4. september síðastliðinn. Umfjöllunarefnið var varðveisla byggingarhandverks þar sem torfarfurinn var í fyrirrúmi. Þá var einstaklega gleðilegt þegar Fornverkaskólinn hlaut viðurkenningu fyrir framlag til varðveislu á fornu byggingarhandverki á ársfundi Minjastofnunar Íslands 2023.
Í nóvember kom barnabókin „Vetrardagur í Glaumbæ“ út en útgáfu bókarinnar var fagnað með útgáfuhófi og opnun samnefndrar sýningar í Áshúsi í desember, þar sem hún stóð í tvær vikur. Líkt og „Sumardagur í Glaumbæ“ er bókin samstarfsverkefni Berglindar Þorsteinsdóttur safnstjóra og Jérémy Pailler listamanns. Bókin var gefin út á fjórum tungumálum. Um miðjan desember var sýningin með listaverkum bókarinnar var sett upp í Safnahúsinu á Sauðárkróki þar sem áhugasamir geta barið hana augum út janúar 2024.
Auk ýmissa annarra verkefna sem ekki verður farið nánar út í hér stóð safnið einnig fyrir ellefu viðburðum, auk þess að taka þátt í fjölda annarra viðburða, s.s. málþingum, ráðstefnum sem og atvinnulífssýningunni á Sauðárkróki, svo dæmi séu tekin. Viðburðir safnsins fengu góðar undirtektir og voru að jafnaði vel sóttir.
Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga hlakkar til viðburðaríks árs 2024 og færir samstarfsaðilum, velunnurum og gestum safnsins hjartans þakkir fyrir samfylgdina á liðnu ári!