Kvikmyndateymið MASH var við tökur í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ nú fyrir helgi en þeir voru á vegum Félags safna og safnamanna (FÍSOS) sem hefur ráðist í að gera kynningarmyndband um söfn sem verður frumsýnt í haust. Um er að ræða annað myndbandið sem Físos lætur gera og er sjálfstætt framhald af öðru myndbandi sem birt var á Safnadeginum 18. maí síðstliðinn. Myndböndin bera yfirskriftina: „Komdu á safn!“
„Myndbandið verður um 2 mín langt og þræðir sig frá höfuðborginni yfir á Norðurland og endar á Húsavík. Megin þema verður farartæki og samgöngur fyrr og nú. Með allskonar persónulegu tvisti,“ segir í tilkynnigu frá félaginu. Að þessu sinni voru Byggðasafn Skagfirðinga í Glaumbæ, Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri, Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði, Minjasafnið á Akureyri, Listasafnið á Akureyri og Hvalasafnið á Húsavík valin til að birtast í myndbandinu.
Kvikmyndateymið, sem samanstendur af þeim Hannesi Einari Einarssyni, Matthíasi Bjarnasyni og Nikulási Hansen Daðasyni, annast handritagerð og myndatöku. Sæþór Már Hinriksson safnvörður í Glaumbæ var fenginn til að leika hlutverk í myndskeiðinu og verður gaman að sjá útkomuna í haust.