Fara í efni

Fornleifadeild

Frá fornleifarannsókn á vegum Skagfirsku kirkju og byggðasögurannsókninni í Keflavík á Hegranesi.

Um fornleifadeildina

Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga var sett á fót árið 2003 og stendur fyrir og stuðlar að rannsóknum á menningarminjum í Skaga­firði og víðar. 

Rann­sóknar­starfsemi deildarinnar innan Skagafjarðar markast af rannsóknastefnu safnsins. Lögð er áhersla á að skapa þekkingu á skagfirsku minja­umhverfi, bæði með frumrannsóknum og úrvinnslu og samþættingu rannsókna sem farið hafa fram í héraðinu, í þeim tilgangi að byggja upp héraðsbundna þekkingu, efla áhuga og vitund um sögu og umhverfi og fjölga möguleikum til að nýta menningarminjar, t.d. í ferðaþjónustu. Einnig er áhersla lögð á rannsóknarsamstarf við ýmsa aðila, bæði innan héraðs og utan sem og við erlenda aðila.

Starfsemi deild­ar­innar skipt­ir verulegu máli fyrir fag­leg störf safnsins og ímynd þess ásamt því að efla það til fjöl­breyttari rannsókna, fag­legrar úrvinnslu og betri minjaverndar. Rannsóknir skapa nýja þekkingu og eru forsendur fræðslu og miðlunar en rannsóknum deildarinnar er miðlað áfram t.d. á heimasíðu, samfélagsmiðlum, með umfjöllun í fjölmiðlum, á formi fyrir­lest­ra, rannsóknaskýrsla, greinaskrifa bæði í fræðileg rit og rit almenns eðlis og með sýningagerð.

Rekstur deildarinnar

Vegna samkeppnisumhverfis fornleifa­rann­sókna á Íslandi er rekst­ur deildarinnar fjárhagslega aðskilinn frá safn­inu og fjárumsýsla henn­ar ekki tengd annarri starfsemi þess. Fornleifa­deild­in er ekki, frem­ur en safnið, rekin í hagnaðarskyni.

Rannsóknir og starfsfólk

Hér má nálgast yfirlit yfir rannsóknarskýrslur deildarinnar.
Hér má nálgast upplýsingar um starfsfólk deildarinnar.