Bandaríski rannsóknarsjóðurinn (National Science Foundation/NSF) styrkir Byggðasafn Skagfirðinga ásamt bandaríku rannsóknarteymi til þriggja ára fornleifa- og jarðsjárrannsókna á skagfirskri kirkju- og byggðasögu. Bandaríski hópurinn er undir stjórn John Steinberg og Douglas Bolender frá Massachussets háskóla í Boston (UMASS). Þeir eru Skagfirðingum að góðu kunnir þar sem að þeir hafa unnið að fornleifarannsóknum og jarðsjármælingum í Skagafirði frá 2001. Hópurinn hefur verið að þróa aðferðarfræði við að nota kjarnabora og jarðsjármælitæki til að meta aldur og stærð jarða, og með því greint breytingar á umfangi einstakra bæja og byggðamunstur stærri svæða.
Byggðasafnið hefur unnið að kirkjusögurannsóknum (Skagfirsku kirkjurannsókninni) frá 2008 en þó má segja að grunnur þess verkefnisins hafi verið í óvæntum fundi og allsherjar uppgreftri kirkjugarðs og kumlateigs í Keldudal árin 2002-3. Fornleifarnar í Keldudal sýndu fram á hversu mikil saga er fólgin í jörðu án þess að nokkur heimild finnist um þær eða ummerki á yfirborði. Í framhaldinu ákvað safnið að kanna frekar hvar og hvernig best væri að finna og greina forna kirkjugarða, og var þá horft til þess að hægt væri að staðsetja þá og þar með forða þeim frá skemmdum vegna framkvæmda ýmiskonar. Þessi rannsókn vatt upp á sig og nú er búið að staðsetja 11 forna kirkjugarða. Að auki hefur 11. aldar kirkjugarður og kirkjuleif að Seylu á Langholti verið grafinn upp. Guðný Zoëga, deildarstjóri fornleifadeildar safnsins, er ábyrðaraðili rannsóknanna fyrir hönd þess í verkefninu.
Tveir fornir kristnir grafreitir aðrir en Keldudalskirkjugarður hafa verið rannsakaðir í Hegranesi. „Dómhringurinn“ á Hegranesþingstað reyndist kristinn grafreitur og fyrir tveimur árum komu RARIK menn niður á 11 aldar kirkjugarð í túni í Keflavík. Það er einmitt ætlun rannsakenda að kanna nánar grafreitinn í Keflavík á næstu árum með fullnaðar uppgreftri. Annars mun þetta verkefni að mestu felast í skipulögðum borkjarnarannsóknum og jarðsjármælingum sem fylgt verður eftir með litlum könnunarskurðum í forna öskuhauga og mögulega kirkjugarða.
Með þessari rannsókn er ætlunin er að gera heilstæða rannsókn á byggðaþróun og kirkjusögu jarða á Hegranesi, frá landnámi fram á 13. öld. Eyhildarholt er undanskilið þar sem jörðin tilheyrði Akrahreppi á þeim tíma. Hegranes varð fyrir valinu vegna þess að það er landfræðilega vel afmarkað. Vitað er um a.m.k. átta mögulegar kirkjur/kirkjugarða á Hegranesi og þar af hafa þrír verið rannsakaðir. Aðrar fornleifarannsóknir hafa einnig farið þar fram s.s. vegna ritunar V. Bindis Byggðasögu Skagafjarðar. Með rannsóknininni vonumst við til að hægt verði að sýna fram byggðaþróun jarða á Hegranesi, hvort þar voru stofnaðar kirkjur/kirkjugarðar á mörgum bæjum og hvort sú staðreynd að kirkjugarðarnir virðast flestir aflagðir á fyrri hluta 12. aldar geti tengst breytinum á stærð og efnahag bæjanna.
Rannsóknin hefst 2015 og lýkur 2017. Í júní munu starfsmenn Byggðasafnsins hefjast handa við heildar fornleifaskráningu Hegraness. Fyrstu vikuna í júlí kemur 17 manna hópur sérfræðinga og nema frá Bandaríkjunum og verður fram í miðjan ágúst. Með starfsmönnum Byggðasafnsins verða því um 20 manns við rannsóknir í Hegranesi í sumar.
Rannsókn sem þessi er eingöngu gerleg í góðri sátt og samstarfi við bændur og landeigendur enda eru minjarnar sem á að rannsaka gjarnan nálægt bæjum, í túnum og öðrum nytjalöndum. Nánast undantekningalaust hefur fólk áhuga á að kynnast nánar sögu bæja sinna og við höfum fundið fyrir miklum veljvilja og áhuga þar sem rannsóknir okkar hefur borið niður. Það er til mikils unnið ef sú saga sem enn liggur í jörðu kemst upp á yfirborðið í formi nýrrar þekkingar, án þess að þeim verði raskað um of. Við hlökkum til sumranna sem framundan eru!
Hér má sjá tilkynningu um styrkinn hjá Bandaríska Rannsóknarráðinu